ofnbakað rósakál og perur með kaldri tamari steikarsósu


Mynd / Gunnar Bjarki fyrir Gestgjafann

Rósakálið er klassískt og algjört uppáhald hjá svo mörgum yfir hátíðarnar en í þessari uppskrift bætti ég við gróft skornum perubitum og bakaði saman í ofninum. Köld tamarisósan passar ótrúlega vel við og tekur enga stund að búa til. Toppið með söxuðum pistasíum fyrir stökka áferð í bland við það mjúka.

UPPSKRIFT
Fyrir 4-6 sem meðlæti

1 kg rósakál, skorið í tvennt
4 lífrænar perur, skornar í grófa bita
90gr pistasíur, án skelja
3 msk lífræn hágæða ólífuolía
S&P

Köld tamari steikarsósa
60ml sinnep
60ml lífræn tamarisósa
2 msk hrísgrjónaedik
2 msk vatn


Aðferð

Byrjið á því að hita ofninn á 180*c, blástur. Komið rósakálinu og perunum fyrir í eldföstu móti. Hellið olíunni yfir og saltið og piprið. Bakið í 20-30 mínútur eða þar til rósakálið fær örlítinn dökkann lit og er mjúkt í gegn.

Undirbúið steikarsósuna og geymið í ísskápnum þar til rósakálið er borið fram. Toppið að lokum með pistasíuhnetum.


Arna Engilbertsdóttir